Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 25/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

 

Mál nr. 25/2023
Fimmtudaginn 23. mars 2023

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

ÚRSKURÐUR

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 12. janúar 2023 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 11. janúar 2023, þar sem umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi, dags. 16. janúar 2023, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 17. janúar 2023. Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 18. janúar 2023, og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi, sem er fæddur X, lagði fram umsókn um aðstoð vegna fjárhagsvanda 4. október 2022. Þann 29. desember 2022 óskaði kærandi eftir því að umsókn hans yrði breytt í umsókn um greiðsluaðlögun einstaklinga. Með bréfi, dags. 3. janúar 2023, var kæranda tilkynnt að við vinnslu á umsókn hans hefðu komið í ljós atriði sem leitt gætu til synjunar umsóknar um greiðsluaðlögun. Með bréfinu var kæranda veitt færi á að leggja fram skýringar og gögn áður en ákvörðun um afgreiðslu umsóknar yrði tekin. Kærandi kom til embættisins þann 4. janúar 2023 og veitti munnlegar skýringar sem kærandi staðfesti með undirritun sinni. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 11. janúar 2023, var umsókn kæranda synjað á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. og b-liðar 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki sérstakar kröfur í málinu en skilja verður kæru hans svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja honum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.


 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í bréfi umboðsmanns skuldara, dags. 3. janúar 2023, er vísað til þess að í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Í 4. gr. lge. séu raktar þær upplýsingar og þau gögn sem skuldara beri að leggja fram þegar sótt sé um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Í 1. mgr. 4. gr. lge. sé upptalning í 10 töluliðum á því sem koma skuli fram í umsókninni. Fram kemur í 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. að umsókn skuli fylgja sundurliðaðar upplýsingar um eignir og í 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. að umsókn skuli fylgja upplýsingar um hverjar tekjur skuldara séu, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Jafnframt skuli greina frá því hvort skuldari muni hafa aðra fjármuni en vinnutekjur sínar til að greiða af skuldum, svo sem vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra. Í 6. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. komi fram að umsókn skuli fylgja mat skuldara á meðaltali mánaðarlegra útgjalda. Þá komi fram í 3. mgr. 4. gr. lge. að umsókn skuli fylgja gögn til staðfestingar þeim upplýsingum sem hún hafi að geyma. Loks komi fram í 3. mgr. 4. gr. að umsókn skuli meðal annars fylgja síðustu fjögur skattframtöl skuldara.

Í 5. gr. lge. sé kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli óska eftir öllum nauðsynlegum upplýsingum frá skuldara, opinberum aðilum og einkaaðilum. Þá segir í greinargerð með lögunum að eigi umboðsmaður erfitt um vik með að nálgast einhver gögn, sé það á ábyrgð skuldara að afla þeirra.

Fram kemur í bréfi umboðsmanns að við vinnslu á umsókn kæranda hafi komið í ljós misræmi samkvæmt opinberum gögnum og veltu (innborgunum) á bankareikningi kæranda hjá Íslandsbanka og Landsbankanum vegna tekjuáranna 2021 og 2022 sem nauðsynlegt væri að fá skýringar á.

Samkvæmt upplýsingum úr skattframtali 2022 vegna tekna ársins 2021, hafi heildarnettótekjur kæranda á árinu 2021 verið 6.582.225 krónur. Tekjurnar samanstóðu af greiðslum frá Tryggingastofnun, Greiðslustofu lífeyrissjóða og barnabótum.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum hafi velta á bankareikningi kæranda nr. X verið 8.528.800 krónur og því hafi verið mismunur á tekjum samkvæmt opinberum gögnum og veltu á bankareikningum að fjárhæð 1.946.575 krónur á árinu 2021. Umboðsmaður óskaði eftir skýringum á tilteknum greiðslum, samtals að fjárhæð 1.154.875 krónur, til kæranda á umræddan reikning, þ.e. hvers vegna þær væru og hvernig fjármununum hafi verið ráðstafað. Þá hafi kærandi greint frá því í samskiptum við embættið að kona hans hafi verið tekjulaus og því væri óskað skýringa á innborgun frá henni á reikning kæranda á árinu 2021, samtals að fjárhæð 442.669 krónur.

Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá Skattsins, álagningarseðli og frá Tryggingastofnun hafi heildarnettótekjur kæranda á árinu 2022 verið að fjárhæð 6.493.732 krónur.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum hafi veltan á reikningi kæranda nr. X verið 10.280.843 krónur. Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka hafi velta á reikningi nr. X verið 1.468.023 krónur.

Velta hafi samtals verið 11.748.866 krónur og því hafi mismunur á tekjum samkvæmt opinberum gögnum og veltu á bankareikningum verið 5.255.134 krónur á árinu 2022. Umboðsmaður óskaði eftir skýringum á tilteknum greiðslum, samtals að fjárhæð 2.582.414 krónur, til kæranda á umrædda reikninga, þ.e. hvers vegna þær væru og hvernig fjármununum hafi verið ráðstafað. Í ljósi þess að kærandi hafi greint frá því að eiginkona hans hafi verið tekjulaus hafi embættið sérstaklega óskað eftir skýringum á innborgunum frá henni á reikning kæranda á árinu [2022], samtals að fjárhæð 2.204.981 króna.

Í bréfi umboðsmanns var einnig vísað til b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. þar sem fram kemur að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi verið stofnað til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar.

Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um greiðsluaðlögun komi fram að þær ástæður sem fjallað sé um í 2. mgr. 6. gr. lge. eigi það sameiginlegt að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju eða öllu leyti rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni.

Samkvæmt gögnum málsins hafi heildarnettótekjur kæranda, framfærslukostnaður og greiðslugeta verið eftirfarandi árið 2022 í krónum:

Tekjur

 

Heildarnettótekjur

6.493.732

Á mánuði

541.144

 

 

Framfærslukostnaður

 

Framfærsluviðmið UMS 2+3

458.699

Húsaleiga

85.230

Rafmagn/hiti

7.686

Skóli/dagvistun

34.042

Útvarpsgjald

1.567

Gjald í framkvæmdarsjóð aldraðra

1.028

Svigrúm UMS

9.174

Samtals

597.426

 

 

Greiðslugeta

-56.282

 

Upplýsingar um tekjur hafi verið fengnar úr staðgreiðsluskrá Skattsins, frá Tryggingastofnun og samkvæmt álagningarseðli.

Kostnaður vegna framfærslu hafi verið miðaður við að kærandi framfleytti fjölskyldu sinni einn, sbr. það sem fram hafi komið í samtali kæranda við starfsmenn embættisins þann 16. september 2022 um að eiginkona hans hafi engar tekjur og því sjái kærandi einn um framfærslu fjölskyldunnar. Annars vegar sé miðað við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara vegna janúar 2023 og hins vegar við gögn frá Félagsbústöðum varðandi kostnað við húsaleigu, rafmagn og hita. Þá sé gert ráð fyrir útvarpsgjaldi, gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraða og fjárhagslegu svigrúmi.

Samkvæmt gögnum málsins séu heildarskuldir kæranda 3.654.609 krónur. Þar af séu kröfur, sem féllu undir greiðsluaðlögunarsamning sem lauk 18. ágúst 2022, að fjárhæð 2.846.315 krónur.

Samkvæmt upplýsingum frá Netgíró hafi verið gerð kaup hjá Netgíró í formi mánaðarreiknings á tímabilinu 26. september 2022 til og með 25. október 2022, að fjárhæð 185.951 króna. Gert sé ráð fyrir að reikningurinn sé greiddur á níu mánuðum. Mánaðarleg afborgun hafi verið 20.660 krónur og hafi tveir gjalddagar verið greiddir. Fyrir liggur að kæranda vantaði 76.942 krónur á mánuði til þess að geta staðið við mánaðarlegar greiðslur samkvæmt samningnum.

Þá hafi samkvæmt upplýsingum frá Netgíró verið gerð kaup hjá Netgíró á tímabilinu 26. nóvember 2022 til og með 25. desember 2022, að fjárhæð 135.279 krónur. Gert hafi verið ráð fyrir því að reikningurinn yrði greiddur í einu lagi 1. janúar 2023. Fyrir liggur að kæranda vantaði 212.221 krónu á mánuði til þess að geta greitt reikninginn á gjalddaga, 1. janúar 2023. 

Fyrri samningi kæranda um greiðsluaðlögun lauk 18. febrúar 2022. Í samningnum hafi verið kveðið á um greiðslufrest af samningskröfum í 36 mánuði. Þegar kom að samningslokum hafi kærandi óskað eftir breytingu á samningnum og hafi það verið samþykkt af hálfu kröfuhafa að greiðsluaðlögunartímabilið yrði framlengt um sex mánuði og að þeim tíma liðnum veittur greiðslufrestur, eða til og með 18. ágúst 2022. Fyrir liggur umsókn um aðstoð vegna greiðsluvanda sem lögð var inn hjá embættinu, dags. 4. október 2022. Einnig liggi fyrir að kaup hafi verið gerð hjá Netgíró á tímabilinu 7. október 2022 til og með 19. desember 2022, samtals að fjárhæð 321.230 krónur.

Óskað var skýringa kæranda á lántökum og hvort þær hafi verið nauðsynlegar til framfærslu hans. Þá hafi jafnframt verið óskað eftir skýringum á því hvernig kærandi hafi séð fyrir sér að geta staðið undir afborgunum af lánum á þeim tíma sem þau voru tekin og í ljósi fjárhagsstöðu hans. Nauðsynlegt væri að kærandi legði fram skýringar, studdar gögnum, sem sýndu að kærandi hefði ekki stofnað til skulda á þeim tíma sem hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar.

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að þann 4. janúar 2023 hafi kærandi komið til embættisins og veitt meðal annars þær skýringar að innborganir að fjárhæð 810.000 krónur þann 4. nóvember 2022 hafi verið lán. Kærandi hafi jafnframt skýrt frá því að hann hefði fest kaup á flugmiða fyrir annan einstakling og innborgun frá honum að fjárhæð 144.180 krónur, dags. 2. nóvember 2022, hafi verið vegna kaupanna.

Kærandi hafi þá verið upplýstur um að embættið myndi óska eftir færsluyfirlitum vegna reikninga hans í því skyni að sannreyna þær upplýsingar sem hann veitti.

Á færsluyfirliti vegna reiknings nr. X mátti ráða að kærandi hefði fest kaup á flugmiða frá Icelandair, dags. 4. nóvember 2022 að fjárhæð 133.035 krónur. Á færsluyfirliti hafi einnig verið færsla frá „Duty Free Store“ í Reykjanesbæ, dags. 17. desember 2022, að fjárhæð 3.639 og færsla frá […], dags. 1. desember 2022, að fjárhæð 12.919 krónur.

Kæranda hafi verið sendur tölvupóstur, dags. 9. janúar 2023, þar sem óskað hafi verið eftir afriti af flugmiða sem keyptur hafi verið 4. nóvember 2022, auk þess sem óskað hafi verið eftir skýringum á færslu í Duty Free Store í Reykjanesbæ og á færslu frá […].

Kærandi kom til embættisins 10. janúar 2023 og veitti þá þær skýringar að hann hafi í raun fest kaup á flugmiðanum fyrir sjálfan sig. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa keypt miðann fyrir annan aðila eins og hann hafði skýrt frá hjá embættinu 4. janúar 2023. Kærandi kvaðst hafa þurft að fara til O til þess að kaupa lyf sem ekki fengjust á Íslandi og væru honum nauðsynleg vegna veikinda.

Með tölvupósti sama dag sendi kærandi afrit af reikningi vegna kaupa á þremur flugleggjum fyrir þrjá fullorðna frá K, að fjárhæð [229.154] krónur. Reikningurinn var á nafni kæranda og var bókunin gerð X. september 2022. Af reikningnum hafi mátt ráða að ferðin hafi verið farin X. október 2022.

Kærandi veitti jafnframt þær skýringar að færsla úr Duty Free Store væri vegna kaupa í flugstöðinni þar sem flugfarþegar væru sóttir en ekki í fríhöfninni sjálfri. Þá veitti kærandi þær skýringar að færsla vegna […] væri vegna þess að hann hafi íhugað að flytja til P og sótt um leyfi til að fara inn í landið. Þegar hann hafði lagt inn umsókn og greitt, hafi tekið við biðtími og umsókninni að lokum verið synjað.

Að mati umboðsmanns skuldara hafi skýringar á tilteknum innborgunum inn á reikning kæranda verið verulega misvísandi, auk þess sem framlögð gögn séu í engu samræmi við veittar skýringar. Þannig séu kaup á flugmiða í gegnum Icelandair, dags. 4. nóvember 2022, að fjárhæð 133.035 krónur, ekki í samræmi við framlagðan reikning vegna kaupa á þremur flugleggjum fyrir þrjá fullorðna einstaklinga í gegnum ferðaskipuleggjandan K, dags. 28. september 2022.

Þá séu skýringar kæranda varðandi kaup í Duty Free Store um að hann hafi verið að kaupa í komu/brottfararsal flugstöðvarinnar ótrúverðugur þar sem Duty Free Store (fríhafnarverslun) Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar sé eingöngu fyrir flugfarþega á leið til landsins eða frá landinu.

Með vísan til alls framangreinds hafi það verið mat embættisins að fyrirliggjandi gögn hafi ekki gefið nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Á fundi hjá embættinu þann 4. janúar 2023 veitti kærandi einnig skýringar á tilurð skulda við Netgíró.

Varðandi Netgíró reikning frá 26. september 2022 til og með 25. október 2022, að fjárhæð 185.951 króna, vegna kaupa á ýmsum vörum, kvað kærandi þau kaup hafa verið nauðsynleg vegna barna sinna, einkum kaup frá Móðurást og Barnaloppunni. Ítrekað hafi verið stolið frá fjölskyldunni þar sem þau búa og því hafi verið nauðsynlegt að endurnýja það sem stolið var. Þá kvaðst kærandi hafa þurft að kaupa ryksugu í Elko.

Varðandi Netgíró reikning á tímabilinu 26. nóvember 2022 til og með 25. desember 2022, að fjárhæð 135.279 krónur, vegna kaupa á ýmsum vörum, meðal annars í Elko, þá veitti kærandi meðal annars þær skýringar að kaup í Elko að fjárhæð 119.996 krónur hafi verið nauðsynleg. Hann kvaðst hafa fengið lánaðan „scooter“ hjá vini sínum til þess að fara í Bónus í Kjörgarði en honum hafi verið stolið í þeirri ferð. Kærandi hafi því ekki séð sér annað fært en að kaupa nýjan „scooter“ fyrir vin sinn á þessum tímapunkti.

Kærandi lagði inn umsókn um aðstoð vegna fjárhagsvanda, dags. 4. október 2022, og var mánaðarleg greiðslugeta hans að meðaltali neikvæð um 56.282 krónur á árinu 2022. Þrátt fyrir það stofnaði kærandi til tveggja mánaðarreikninga við Netgíró þar sem kaup voru í öllum tilvikum gerð eftir að umsókn var lögð fram hjá embættinu.

Það hafi verið mat embættisins að kaup á vörum sem nauðsynleg séu til heimilisins og framfærslu fjölskyldunnar falli ekki undir b-lið 2. mgr. 6. gr. lge., sbr. kaup hjá Barnaloppunni, Móðurást og kaup á ryksugu hjá Elko. Þá hafi það verið mat embættisins að kaup hjá Elko, dags. 19. desember 2022, að fjárhæð 119.996 krónur, hafi ekki verið nauðsynleg vegna framfærslu heimilisins.

Með vísan til framangreinds hafi það verið mat embættisins að kærandi hafi stofnað til skulda á þeim tíma sem hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar, sbr. b-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara kemur fram að í hinni kærðu ákvörðun hafi fjárhagsstaða kæranda verið rakin, auk annarra upplýsinga er málið varðar. Við meðferð málsins hafi komið í ljós atvik sem þóttu geta leitt til synjunar um heimild til greiðsluaðlögunar. Því hafi kæranda verið sent ábyrgðarbréf, dags. 3. janúar 2023, þar sem honum var boðið að leggja fram frekari gögn í málinu og láta álit sitt í ljós. Kærandi kom til embættisins þann 4. janúar 2023 og veitti munnlegar skýringar sem skrifaðar voru á bréfið og sem kærandi staðfesti með undirritun sinni. Með ákvörðun, dags. 11. janúar 2023, hafi kæranda verið synjað um greiðsluaðlögun með vísan til b-liðar 1. mgr. og b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmanni skuldara ber við mat á umsókn að líta til þeirra aðstæðna sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 1. mgr. greinarinnar kemur fram að skylt sé að synja umsókn um greiðsluaðlögun, með vísan til þeirra aðstæðna sem þar eru tilgreindar. Í 2. mgr. greinarinnar kemur fram að heimilt sé að synja umsókn um greiðsluaðlögun, með vísan til þeirra aðstæðna sem þar eru tilgreindar. Í hinni kærðu ákvörðun sé ítarlegur rökstuðningur fyrir synjun umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun, með vísan til b-liðar 1. mgr. og b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Í hinni kærðu ákvörðun er farið yfir atvik málsins og hvernig þau heimfærast undir umrædd ákvæði 6. gr. lge. Við meðferð málsins var kæranda veitt færi á að gera athugasemdir og leggja fram gögn í málinu vegna þeirra atriða sem þóttu geta leitt til synjunar á umsókn um greiðsluaðlögun. Eftir að hafa skoðað upplýsingar frá kæranda og gögn málsins komst umboðsmaður skuldara engu að síður að þeirri niðurstöðu að óhæfilegt þætti að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar. Í hinni kærðu ákvörðun sé sú niðurstaða rökstudd og með því var tekin afstaða til framkominna upplýsinga og gagna.

Varðandi framkvæmd b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. í greiðsluaðlögunarmálum hjá umboðsmanni skuldara og kærunefnd greiðsluaðlögunarmála má vísa til úrskurða nefndarinnar í málum nr. 17/2011 og nr. 23/2011. Af þeim verður ráðið að taka ber tillit til samspils tekna og skulda á þeim tíma sem umsækjendur um greiðsluaðlögun stofna til skuldbindinga og ef ljóst þykir að þeir hafi ekki getað staðið við þær þegar til þeirra var stofnað sé umboðsmanni skuldara heimilt að synja um greiðsluaðlögun. Hin kærða ákvörðun byggði á heildstæðu mati á aðstæðum kæranda, miðað við þau gögn sem lágu fyrir. Ekkert hefur komið fram á síðari stigum sem breytt getur þeim forsendum sem synjun á heimild kæranda til greiðsluaðlögunar er byggð á.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á hún verði staðfest. Embættið vekur athygli á því að í símtali við kæranda þann 4. janúar 2023 hafi honum verið boðin aðstoð túlks þar sem bréfið sem honum var sent 3. janúar 2023 hafi verið á íslensku. Kærandi kom til fundar hjá embættinu sama dag þar sem hann útskýrði ástæður þess að hann vildi ekki fá aðstoð túlks. Af þeim sökum var farið yfir efni bréfsins með kæranda og skýringar hans skrifaðar á bréfið og sem kærandi staðfesti með upphafsstöfum sínum.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. og b-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Við mat á því hvað teljist vera nægjanlega glögg mynd af fjárhag skuldara í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. telur úrskurðarnefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge.

Í 4. gr. lge. er gerð grein fyrir því hvernig umsókn um greiðsluaðlögun skuli vera úr garði gerð. Í 1. mgr. 4. gr. er upptalning í 10 töluliðum á því sem koma skal fram í umsókninni. Í 2. tölul. lagaákvæðisins kemur fram að í umsókn skuli koma fram sundurliðaðar upplýsingar um eignir skuldara. Í 4. tölul. lagaákvæðisins segir síðan að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram hverjar tekjur skuldara séu, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum.

Í athugasemdum með 4. gr. í frumvarpi til lge. kemur fram að gert sé ráð fyrir að skuldari, eftir atvikum með aðstoð umboðsmanns skuldara, leggi mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt mánaðarlega til að standa skil á skuldbindingum sínum. Upptalning í 1. mgr. sé ekki tæmandi, enda sé gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en þeirra sem tilgreindar séu í ákvæðinu.

Í 5. gr. lge. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur þýðingu við mat á því hvort tilefni sé til að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.

Í skýringum við frumvarp til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni skuldara sé skylt að hafna umsókn, gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar, enda sé mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt í og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Hver sá sem leitar greiðsluaðlögunar skal þannig veita umboðsmanni skuldara ítarlegar upplýsingar og gögn, sbr. 4. og 5. gr. lge. Í þessu felst skylda til að veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að greina fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Með öðru móti verður ekki lagt efnislegt mat á hvort heimilt eða hæfilegt sé að veita skuldara greiðsluaðlögun. Rannsóknarskylda stjórnvalda leysir umsækjanda um greiðsluaðlögun ekki undan þeirri skyldu.

Í bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda, dags. 3. janúar 2023, var óskað eftir upplýsingum um misræmi á tekjum samkvæmt opinberum gögnum og veltu á bankareikningum kæranda sem nam 5.255.134 krónum á tekjuárinu 2022. Sérstaklega óskaði umboðsmaður eftir skýringum á þremur innborgunum á bankareikninga kæranda, alls að fjárhæð 954.180 krónur. Kærandi veitti þær skýringar að tvær innborganir, samtals að fjárhæð 810.000 krónur, hefðu verið lán og sú þriðja hefði verið innborgun að fjárhæð 144.180 krónur frá einstaklingi sem hann keypti flugmiða fyrir. Í kjölfar frekari gagnaöflunar hjá umboðsmanni skuldara kom í ljós að kærandi hafði í raun keypt flugmiðann fyrir sjálfan sig. Auk framangreinds kom í ljós að kærandi hafði keypt flugmiða fyrir þrjá fullorðna frá K, að fjárhæð 229.154 krónur. Reikningurinn var á nafni kæranda og mátti ráða af reikningum að ferðin hafi verið farin X. október 2022.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála hefur kærandi þannig veitt misvísandi og ófullnægjandi skýringar um misræmi á tekjum samkvæmt opinberum gögnum og veltu á bankareikningum hans. Fjárhagur hans verður því að teljast óljós að þessu leyti.

Það er markmið lge. að gera einstaklingum kleift að endurskipuleggja fjárhag sinn með samningum við kröfuhafa og eftir atvikum með niðurfellingu skulda að einhverju eða öllu leyti. Samkvæmt reglum lge. er skuldara gert að greiða eins hátt hlutfall af kröfum og sanngjarnt þykir þar sem í greiðsluaðlögun felst að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils. Hér verður að hafa í huga að skuldari hefur sjálfur óskað þess að fá heimild til greiðsluaðlögunarsamnings við kröfuhafa.

Að mati úrskurðarnefndarinnar eru þær upplýsingar, sem tilgreindar eru í ákvæði 1. mgr. 4. gr. lge., grundvallarupplýsingar til þess að unnt sé að taka umsókn um greiðsluaðlögun til afgreiðslu, enda er ómögulegt án þeirra upplýsinga að átta sig á greiðslugetu skuldara þegar gerður er samningur um greiðsluaðlögun, sbr. ákvæði 2. mgr. 16. gr. lge. um gerð frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun.

Með vísan til þess er það mat úrskurðarnefndarinnar að fjárhagur kæranda sé óljós í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. og því hafi verið rétt að synja honum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á þeim grundvelli.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist einnig á b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt b-lið er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar.

Kærandi sótti um að aðstoð vegna fjárhagsvanda þann 4. október 2022 en óskaði þann 29. desember 2022 eftir því að þeirri umsókn yrði breytt í umsókn um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Að mati úrskurðarnefndarinnar þykir rétt að líta til ársins 2022 að því er varðar tekjur og framfærslukostnað kæranda í aðdraganda þess að hann sótti um greiðsluaðlögun.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins var greiðslugeta kæranda, miðað við framfærslukostnað og tekjur, neikvæð um 56.282 krónur á árinu 2022. Kærandi stofnaði á sama tíma til eftirfarandi skuldbindinga hjá Netgíró á tímabilinu 26. september 2022 til og með 25. desember 2022, í krónum talið:

7. október 2022

Móðurást

45.900

7. október 2022

Barnaloppan

80.000

12. október 2022

Elko

24.047

21. október 2022

Aðalskoðun

15.100

7. desember 2022

Kvikk

13.000

19. desember 2022

Elko

119.996

19. desember 2022

Byko

1.490

 

Samtals:

299.533

 

Kærandi veitti skýringar á umræddum kaupum þann 4. janúar 2023 og benti á að þau hefðu verið nauðsynleg. Umboðsmaður skuldara féllst ekki á að kaup kæranda þann 19. desember 2022, að fjárhæð 119.996 krónur, hefðu verið nauðsynleg til framfærslu heimilis.

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Í því lagaákvæði eru í sjö stafliðum rakin þau atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Þetta eru ástæður sem eiga það sameiginlegt að byggjast á því að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun, verði vandi hans að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi til lge.

Eins og að framan er rakið var greiðslugeta kæranda neikvæð um 56.282 krónur að meðaltali á mánuði við árslok 2022. Fyrir liggur að kærandi stofnaði til nýrrar skuldbindingar hjá Netgíró 19. desember 2022, án þess að hafa til þess greiðslugetu. Úrskurðarnefndin telur því sýnt, með vísan til þess sem að framan greinir, að kærandi hafi stofnað til skuldbindinga á árinu 2022 sem hann var greinilega ófær um að standa við.

Með vísan til alls þess, sem hér hefur verið rakið, bar að synja umsókn kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. og b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er samkvæmt því staðfest.


 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja umsókn A, um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum